föstudagur, mars 30, 2007

Fyndinn tölvupóstur frá Sírni

Ég var að sjá auglýsta stöðu á auglýsingastofu í Gautaborg og ætla að sækja um þar. Nema hvað umsóknarfresturinn rennur út 30. mars... á morgun, þegar ég skrifa þetta bréf. Venjulega eru um 500-700 umsækjendur um svona stöður. Þar sem ég er bæði seinn til og alveg óundirbúinn þarf ég að vekja á mér eftirtekt á þennan hátt.
Ég vil biðja ykkur að nota virðulegasta veffangið sem þið eigið, helst eitthvað með æruverðugri undirskrift.
Sem og skrifa á ensku, því Svíar skilja enga íslensku aðra en "Þungur hnífur"

Skrifið í efni (subject) bréfsins : Do not hire Sírnir Einarsson

látið svo fylgja með einhverja gjörsamlega glórulausa ástæðu fyrir að ekki ráða mig td: I don't like his clothes, he drools when he talks, He said things about my mother, He smells like fish, He has a schrill and annoying voice. He knows nothing about origami, He sells drugs to children, He sucks eggs, He is a vampyre, He is Bin Laden, He is Elvis reborn

Eða skrifið eitthvað sjálf, látið það flakka, en reynið að halda því þannig að sá sem fær póstinn sjái hann allan í póstforritinu sínu

en bréfið verður að enda á :
and he got the secretary pregnant and took off with all the money

Ég var alveg búinn að gíra mig upp í að rífast við Leikskóla Reykjavíkur út af leikskólaplássi fyrir Ísak. Dagmamman hans ætlar að skipta um starf 1 júní og við sáum fram á að ef hann kæmist ekki inn fyrir haustið þyrftum við að bíða heilt ár í viðbót. Okkur var sagt að það þýddi ekkert annað en að vera nógu harður og rífast við þá sem hafa eitthvað um þetta að segja. En um það leyti sem ég var að fara út í Miðgarð fengum við bréf um að hann væri kominn inn á Laufskála sem er bara rétt hjá okkur. Ég var ekki lengi að hringja þangað og staðfesta boðið en veit þó ekki hvenær hann fær að byrja. Við erum svo sem ekkert í vandræðum í sumar. þetta er alla vega mikill léttir.

laugardagur, mars 24, 2007

Þetta eru samtök sem ég væri til í að ganga í.

Ég var með hljómsveitaræfingu í morgun fyrir Schubert messuna. Gekk þrusuvel þrátt fyrir nokkur veikindi. Það vantaði þrjá hljóðfæraleikara og alla einsöngvarana. Jónas var reyndar sá eini sem gat mætt en ég sagði honum bara að vera heima. Ég söng bara í staðinn fyrir þau. Hljóðfæraleikararnir voru líka svo hrifnir af verkinu. Ekki missa af þessu! Tónleikar eftir rúma viku.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Ég er að prufa að keyra á hámarkshraða, eða öllu heldur fara aldrei yfir hámarkshraða hver svo sem hann í hverju tilfelli. Það bruna bókstaflega ALLIR fram úr mér og horfa jafnvel á mig um leið.

laugardagur, mars 17, 2007

Ég er að fara að gefast upp á leikhúsi yfir höfuð, alla vega Þjóðleikhúsinu. Við fórum að sjá Leg eftir að hafa séð tvær slappar sýningar í vetur. Við mættum með opnum hug en þetta var bara eins og framhaldsskólasýning. Það mátti hlægja að ýmsu en í heild var þetta rosalega yfirborðskennd sýning.
Jæja. Eftir aukaæfingu í morgun getur maður hiklaust mælt með þessum tónleikum. Þetta er alveg stórglæsilegt verk eftir hann Franz og mótetturnar eru í uppáhaldi hjá mér.
Ég fékk mitt hefðbundna stresskast í vikunni. Sá fyrir mér að þetta yrði algjört fíaskó, kvæsti á kórinn og boðaði aukaæfingu. En nú er ég mun rólegri og finn að þau kunna þetta mun betur. Kannski þurfti þetta kvæs til. En ég held að ég hafi alltaf fengið svona stresskast ca. tveimur vikum fyrir tónleika en svo rætist úr öllu, kannski einmitt af því að maður hefur svona miklar áhyggjur. Það var alla vega mjög notalegt í dag og gaman að því hvað allir hjálpuðust vel að. Ekki missa af þessum tónleikum, einsöngvararnir eru frábærir og bara einvalalið í hljómsveitinni.