föstudagur, mars 19, 2004

Þá er vorið komið hingað til Gautaborgar, hiti 10 stig, skyggni ágætt... borgarstarfsmenn farnir að hreinsa sandinn af götunum og ég farinn að hjóla á ný. Mikið er það nú gaman. Þetta er svipuð tilfinning og þegar maður var krakki og fór að nota strigaskóna á ný eftir að hafa verið í kuldaskónum allan veturinn. Það eru reyndar ýmsir hér í borg sem hjóla allan veturinn þrátt fyrir snjó og hálku. Það er nú ekkert fyrir mig.
Ég á reyndar eftir að sakna tímans í sporvagninum því maður getur nýtt hann ágætlega með því að lesa. Stundum hef ég verið að skoða nótur og raulað mjög lágt. Það getur verið dáldið gaman því oftast fer sá sem situr fyrir framan mig að velta fyrir sér hvaðan hljóðið kemur, lítur í kringum sig, horfir upp í loftið, hann heldur ábyggilega að hann sé farinn að heyra raddir.
Svo hef ég stundum stúderað hljómsveitar- eða kórverk og æft mig í að stjórna. Ég vil taka það fram að ég nota mjög litlar hreyfingar en samt fer allur sporvagninn að glápa á mig, unglingsstelpur flissa og benda og þegar ég lít upp þykjast þær vera að tala um eitthvað allt annað og passa sig að horfa ekki á mig. Það er ekki eins og ég sé með einhverjar Bernstein hreyfingar þegar ég er innan um annað fólk. Það er nú önnur saga þegar ég er heima að æfa mig, þá er maður ekkert að spara sig og Skrámi finnst mjög gaman þegar ég sveifla tónsprotanum sem mest. Hann er eiginlega alltaf hjá mér þegar ég æfi hljómsveitarstjórn. Hann er þessi týpa "Handsome and he knows it" með svo sæt augu að maður getur ekki vísað honum frá þegar hann skríður upp í fangið á manni.

Engin ummæli: