miðvikudagur, júní 16, 2004

Það ku víst vera ágætt að sulla hvítlaukssósu á sig áður en maður fer í atvinnuviðtal.

Í gær vaknaði ég klukkan fimm til að keyra til Stokkhólms. Ég átti að vera mættur í atvinnuviðtal klukkan 11 í Nynäshamn sem liggur ca. 60 km suður af Stokkholmi. Á leiðinni stoppaði ég til að fá mér pulsu í frönsku brauði og tókst þá að sulla hvítlaukssósu á bolinn minn. Ég var ekki með neinn aukabol og var bara í sumarjakka sem hefði verið asnalegt að hafa aðhnepptann í viðtalinu. Þar að auki hafði Skrámur gubbað á buxurnar sem ég hafði ætlað í og öll önnur almennileg föt voru enn blaut eftir þvottinn því að þurrkarinn var bilaður. Ég hélt ég myndi ná að kaupa annann bol fyrir viðtalið en síðustu 40 km var sveitavegur með fullt af traktorum á ferli þannig að ég kom 5 mín. í ellefu. En ég hugsaði að það skipti ekki svo miklu máli að vera hálf druslulega til fara í þessu viðtali.

Ég gerði ekki ráð fyrir að vera ráðinn. Þetta er nefnilega eina organistastaðan sem hefur verið auglýst á Stokkhólmssvæðinu um þessar mundir (allt hitt voru kantorsstöður), ég hafði heyrt að það hefði a.m.k. einn diplom-organisti (n.k. konsertorganisti) sótt um og svo vildu þau fá einhvern til frambúðar en ég sæki bara um í eitt ár. Ég var nokkrum sinnum búinn að afskrifa þessa stöðu en viðtalið gekk vel. Það var glatt á hjalla og greinilegt að þau lögðu mikla áherslu á að fá góðan kórstjóra. Svo hitti ég allt hitt starfsfólkið og þar var ennþá meira hlegið. Svo skoðaði ég kirkjuna og jarðarfararkapelluna og svo vildi þau endilega sýna mér bæinn og bjóða mér í hádegismat.

Bærinn er mjög fallegur (alla vega á svona sumardegi), það búa þarna tólf þúsund manns og mikið af túristum á sumrin þar sem það koma svo mikið af skipum þangað. Staðan er spennandi þar sem maður hefur ansi frjálsar hendur með að byggja upp tónlistarlífið, en þó er ýmislegt í gangi þarna fyrir. En alla vega. Í hádegismatnum var mér boðið starfið. Ég bjóst alls ekki við því að þau myndu ákveða sig svona fljótt. Ég bað um vikufrest til að pæla í þessu, aðallega til að vita hvort hinn staðurinn (Trångsund) mundi bjóða mér starfið þar.

Hitt viðtalið í Trångsund var kl. 16.15 en ég náði heldur ekki að kaupa mér bol fyrir það þar sem ég var svona lengi á hinum staðnum. Þannig að ég mætti í hvítlaukssósubolnum, blautur eftir rigningu, í buxum sem hanga asnalega á mér og í sandölum (því spariskórnir hefðu verið stílbrot!). Í þessu viðtali var líka glatt á hjalla (núna voru það fjórar konur sem var kannski auðvelt að sjarmera) og allt gekk vel. Svo settist ég upp í bílinn og byrjaði að keyra til baka og eftir ca. 5 mín. hringdi sóknarpresturinn og bauð mér starfið.

Úllen dúllen doff....

Trångsund er kantorsstaða (þ.e. ekki krafist háskólamenntunar) og liggur ansi nálægt nýju íbúðinni okkar (það er endanlega búið að samþykkja allt skiptiferlið). Öll aðstaðan er fín og mikið um að vera tónlistarlega séð. Það er töluverð viðvera í hverri viku og svo eru þrír barnakórar.
Til Nynäshamn þarf maður að taka lest í 45 mín. (sem þykir ekkert tiltökumál hér í Svíþjóð), er með einn blandaðan kór og svo einn kór með nokkrum gömlum konum (meðalaldurinn er 85 ár). Svo eru nokkrar jarðarfarir innifaldar (í fyrra voru þær 106 yfir árið) en að öðru leiti er þetta nokkuð frjálst. Maður má taka þátt í barnastarfinu, halda tónleika og spila á sjúkrahúsinu en er ekkert bundinn við það.

Ég er sem sagt að hugsa um að taka Nynäshamn stöðuna aðallega því að ég sé fram á að geta haft meiri tíma til að æfa mig og undirbúa fyrir hljómsveitarstjórnar námið. Báðir staðirnir samþykktu þau laun sem ég krafðist (DAMN!... ég hefði átt að fara fram á meira) og þau vita alveg að ég verð sennilega bara í eitt ár. Ég sagðist ætla að svara þeim í síðasta lagi á föstudaginn.

Í dag fóru síðustu gestirnir. Það er sem sagt búið að vera gestir hér síðan 30. maí og voða gaman. Skrámur var reyndar ekkert allt of hrifinn til að byrja með. Hann setti meira að segja upp kryppu og úfið skott þegar Vala var að stríða honum um daginn. En hann er voða hrifinn af Halldóri og stekkur upp í fangið á honum við hvert tækifæri.

Svo var Hrafnhildur gæsuð á sunnudaginn. Það er búið að vera að skipuleggja það undanfarnar vikur. Vinkonur hennar hafa verið að hringja í mig og senda mér leynileg bréf og svo var spurningaleikur þar sem Habbidu átti að giska á hverju ég hefði svarað og mér þótti ekki nema sanngjarnt að gefa henni vísbendingar dagana fyrir, t.d. hvert væri uppáhalds tónskáldið mitt (sem ég vissi eiginlega ekki sjálfur þegar ég var spurður). Þetta gekk víst svaka vel og allir skemmtu sér vel í góðu veðri.

Engin ummæli: