sunnudagur, október 24, 2004

Núna um helgina söng ég með Mikaeli kammerkórnum. Í gær vorum við í Uppsala og í dag í kirkjunni sem kórinn er tengdur við: Adolf Fredriks kirkjunni. Þetta er sem sagt kirkjan sem Anders Öhrwal starfaði við lengi lengi.
Þetta er fantagóður kór og stjórnandinn, Anders Eby, er einn sá fremsti hér í Svíþjóð og prófessor í kórstjórn við Kungliga Musikhögskolan. Mér finnst hann mjög góður, hann gerir miklar kröfur og er ansi strangur og yfirleitt í góðu skapi. Það var dáldið öðruvísi að vinna með honum miðað við Jan Yngve, stjórnanda Pro Musica í Gautaborg, sem gerir líka miklar kröfur en er alveg rosalega "næs." Maður var svo góðu vanur þannig að það voru ansi mikil viðbrigði þegar maður fékk svona strangan kórstjóra. En þeir ná báðir miklum árangri. Hrafnhildur kom að hlusta í dag og sagði alveg eins og mér finnst. Henni fannst Pro Musica hafa hlýjari hljóm Mikaeli syngja mjög nákvæmlega og tæknilega betri. Hún er með svo góðan tónlistarsmekk og það er svo gott að geta spurt hana álits.
Ég byrjaði reyndar í kórnum fyrir rúmum mánuði. Ég hringdi í Anders á mánudegi og hann spurði hvort ég gæti sungið fyrir seinna um kvöldið sem ég og gerði. Svo mætti ég á æfingu daginn eftir. Um helgina var æfingabúðir sem ég komst ekki í því það var of stuttur fyrirvari. Svo voru tónleikar á þriðjudeginum og ég kom bara til að hlusta þar sem ég hafði bara verið á einni æfingu og þetta var ekki beint auðvelt prógram. En Anders sagði að auðvitað ætti ég að syngja með. Þannig að ég söng með og það var nánast allt prima vista. þar að auki var ég ekki rétt klæddur. Allir karlarnir voru í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og bindi en ég var í gráum buxum, skóm sem voru ekki svartir, svörtum bol og svo fékk ég lánaðan svartan jakka. Ferlega óþægilegt.
Ég hafði reyndar sungið helmingin af verkunum áður en Anders vildi að ég syngi 1. bassa þar sem það var fullt í tenórnum. Það eru ca. 8 í hverri rödd. Það er ágætt að syngja bassa, miklu auðveldara en tenór og þægilegt að þurfa ekki að hita röddina eins mikið upp fyrir tónleika.
Það eru líka viðbrigði að í Pro Musica var ég nokkurs konar aðstoðarstjórnandi en það er heilmikil samkeppni á því sviði í þessum kór. Einn bassinn er að fara að stjórna útvarpskórnum, sem er atvinnukór, einn er á fyrsta ári í kórstjórn hjá Anders, einn ætlar að fara að læra kórstjórn í Uppsala eftir áramót og svo er einn á öðru ári hjá Anders og vann um daginn fyrstu verðlaun í alþjóðlegri kórstjórnarkeppni í Vín þar sem voru 75 þáttakendur. En Anders kom til mín í gær og vildi endilega hitta mig til að tala um íslenska tónlist og fá hjálp því kammerkór skólans ætlar að fara til Reykjavíkur í vor.

Engin ummæli: