föstudagur, desember 29, 2006

Hljómeykistónleikarnir gengu barasta mjög vel, merkilegt nokk. Eins og ég hafði miklar áhyggjur af þessu á síðustu æfingunni fyrir jól. Ég held það hafi skilað sér að maður var dálítið strangur þá og skipaði fólki að liggja yfir þessu yfir jólin. Fyrstu fjögur lögin voru frekar einföld miðað við hin en lítið æfð þannig að það myndaðist mikil spenna í upphafi tónleika og allir voru á tánum sem mér fannst mjög gott. Það hlustuðu allir svo vel innbyrðis. Svo var svo gaman hvað það myndaðist allt í einu góður hljómur í kórnum og það er alltaf jafn gaman þegar það gerist á tónleikum. Ég verð nú að segja mér það til hróss að á báðum kórtónleikum mínum í desember hefur fólk sérstaklega haft það á orði hvað lagavalið er gott og hvað það hafi myndast góð stemmning á tónleikunum.
Svo var nú gott að geta slappað af eftirá með kórfélögunum heima hjá Hildigunni og drukkið gott vín.

miðvikudagur, desember 27, 2006

ALLIR AÐ MÆTA!! (annars er mér að mæta!)

Spennandi jólatónleikar
Jólatónleikar Sönghópsins Hljómeykis verða fimmtudaginn 28. desember 2006, kl. 20:00 í Seltjarnarneskirkju.
Á tónleikum mun Sönghópurinn Hljómeyki flytja jólasálma frá 15. og 16. öld en einnig tónlist tengda jólunum eftir tónskáld 20. og 21. aldar. Þannig hefjast tónleikarnir á hinum velþekkta jólasálmi "Það aldin út er sprungið" en lýkur á nýlegri útsetningu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur á enska jólalaginu ,,Ding, dong, merrily on high". Flutt verða nokkur verk tengd Maríu guðsmóður meðal annars ,,Ave maris stella" eftir Trond Kverno. Auk þess verða fluttar á tónleikunum mótetturnar,,O magnum mysterium" og ,,Hodie christus natus est" eftir franska tónskáldið Francis Poulanc.
Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson, en hann tók við stjórn kórsins í haust og eru þetta fyrstu jólatónleikarnir þar sem hann stjórnar kórnum.

laugardagur, desember 23, 2006

Ísak Magnússon og fjölskylda óskar þér gleðilegra jóla

fimmtudagur, desember 14, 2006

Silja klikkar ekki

María góð, svo mild og rjóð


Söngsveitin Fílharmónía hélt sína aðventutónleika á sunnudagskvöldið og endurtók þá í gærkvöldi. Dagskráin var óvenjuleg og spennandi - sem er meira en segja má um aðventutónleika svona yfirleitt. Ekki er kórstjórinn, Magnús Ragnarsson, bara fundvís á óvænt lög, innlend og erlend, til að flytja á þessum árstíma heldur samdi hann sjálfur áhrifamikið kórverk sem kórinn frumflutti á tónleikunum.

Tónleikarnir voru helgaðir Maríu guðsmóður og höfðu yfirskriftina "Himnamóðirin bjarta". Enda voru sungin sex lög um hana, hvert öðru ólíkara. Eiginlega vissi maður ekki hvar maður var staddur í upphafslaginu, "Salve Regina" (Heill þér, drottning) eftir Lars Jansson við sálm frá 9. eða 10. öld. Ekki var undrunin yfir óvæntum taktinum í laginu yfirunnin þegar gæsahúðin tók við og hélt manni í greipum sér út verkið. Þá útskýrði Magnús kórstjóri að þetta væri upphaflega djasslag sem gamli sálmurinn hefði verið lagaður að og þessi útgáfa lagsins væri tileinkuð örbirgum mæðrum í Brasilíu. Þetta er rosalega sterkt verk og var vel valinn upphafspunktur tónleikanna, eftir það var öruggast að vera við öllu búinn.

Eftir á að hyggja finnst mér að í þessu fyrsta verki hafi einkenni Fílharmóníu komið glöggt í ljós. Kórinn syngur afar vel, jafnvægið er gott, textaframburður skýr. Hann syngur af krafti og hefur myndarlegan hljóm og fínan takt. Nú má samt enginn halda að það sé gospelkeimur af honum, síður en svo, kórinn syngur algerlega væmnislaust (og kom þó iðulega út á manni tárum) og krafturinn er ævinlega tempraður smekklegri mildi. Svo ber hann þess greinileg merki að kórstjórinn hefur ekki aðeins næma kímnigáfu heldur er hann fínn leikstjóri.

Eftir fallegan flutning á "Hátíð fer að höndum ein" var komið að frumflutningi á "Spádómi Jesaja" eftir kórstjórann. Magnús valdi að tónsetja þann kafla í spádómnum sem boðar fæðingu Jesúbarnsins og hefst á orðunum: "Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós." Textinn er máttugur og þó að margt sé í honum sem virðist eiga illa við ("menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt") þá var það ráð Magnúsar að taka það frekar út úr og leggja áherslu á það en fela það og ítrekaði með því að þessi texti kemur úr öðrum tíma, öðrum heimi, en segir þó frá því sem skiptir máli fyrir okkur hér og nú. Því miður hafði Jesaja gamli þó ekki rétt fyrir sér þegar hann sagði að friðurinn myndi engan enda taka ... Flutningur verksins var leikrænn og skemmtilegur og kórinn eins og einn maður undir vökulu augliti stjórnanda og höfundar. Það er tilhlökkunarefni að fá að heyra þetta verk aftur að ári.

Freistandi er að skrifa fullkomið efnisyfirlit tónleikanna með athugasemdum en óvíst er að nokkur nennti að lesa það. Hreinlega öll lögin höfðu sín áhrif, gæsahúð tók við að skælum sem aftur leystust upp í gæsahúð eða hlátur! Maríukvæði Atla Heimis sem er eins og það hafi verið til frá upphafi Íslandsbyggðar var gullfallega sungið, Maríukvæði Báru Grímsdóttur, "Eg vil lofa eina þá", er alger snilld, svo skemmtilegt að mann langar til að hoppa og dansa - allavega taka undir: "María væn, þín veitist bæn, virgo gloriosa!" Og okkar frægasta Maríubæn, "Ave María" Kaldalóns sem flokkast nú eiginlega til kraftaverka, hana söng Hulda Björk Garðarsdóttir sópran með kórnum af innileika.

Eftir hlé var farið í heimshornaflakk, sungið klassískt danskt jólalag, "Forunderligt at sige", norska verkið "Toner julenatt" sem leikur sér að "Heims um ból" á algerlega töfrandi hátt, finnsk "Ave María" sem kórinn flutti í þrennu lagi, konurnar allar úti í hliðargöngum en karlarnir í hnapp fremst á sviðinu, konurnar báðu og karlarnir sungu sama texta. Rosalega flott! Og eftir finnskan dapran hátíðleika komu Þrír piparkökukarlar frá Svíþjóð og lömuðu mann af hlátri! Meira að segja var farið til Úkraínu og makalaust að stór kór skuli geta sungið gersamlega í takt svona framandi texta. Það lag, "Shchedrik", notaði kórinn sem uppklappslag til að reyna að friða æstan múginn sem vildi ekki hætta að klappa. Það gerðist eftir lokalagið, franska jólasálminn "Nóttin helga", sem Hulda Björk söng yndislega með kórnum og við organleik Kára Þormar.

Tvisvar fengu tónleikagestir að syngja með kórnum sem ævinlega er vel þegið. "Fögur er foldin" er að vísu óttalega vandræðalegur texti, en einstaklega ánægjulegt var að fá að syngja "Kvæði af stallinum Kristí" eftir Einar í Heydölum með kórnum og Huldu Björk. Þetta voru dásamlegir tónleikar; ég er ekki frá því að ég sé beinlínis betri manneskja eftir þá.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Það gerist nú ekki á hverjum degi sem það er mynd af okkur hjónunum í blaðinu á sitt hvorum staðnum en þannig er það nú í Fréttablaðinu í dag. Það er viðtal við Hrafnhildi talmeinafræðing með mjög flottri mynd í miðblaðinu og svo er mjög tilgerðarleg mynd af mér að stjórna hjá leikhúsauglýsingunum. Greyið kórarnir mínir ef ég lít alltaf svona út þegar ég stjórna!

Hljómeykisæfingin í gær gekk mjög vel og ég er aðeins rólegri fyrir tónleikana. Það er nokkuð langt í þá en mjög fáar æfingar eftir. Ég náði að hreinsa til í Poulenc og ýmsu öðru og veit að það verður virkilega flott.

Svo eru seinni tónleikarnir hjá Fílharmóníunni í kvöld. Ég hlakka mikið til því það myndaðist svo góð stemning á sunnudaginn. Við erum búin að fá mikið hól.

sunnudagur, desember 10, 2006

Það myndaðist rosalega góð stemning á tónleikunum í kvöld. Og kórinn hefur aldrei sungið svona vel. Það var virkilega flottur og jafn hljómur í honum. Þetta gekk líka alveg snuðrulaust fyrir sig. Meira að segja allar tilfærslur á kórmeðlimum.
Þetta er í þriðja skiptið sem ég stjórna tónleikum með Fílharmóníunni og í öll þrjú skiptin hefur sópransólistinn verið veikur. Hulda Björk var með kvef og átti í erfiðleikum með neðra sviðið á æfingunni en fór létt með háu tónana. Svo var ekkert að heyra að hún væri veik á tónleikunum. Hún heillaði alla upp úr skónum. Ekki síst kórmeðlimi.
Nú er ég búinn að senda tölvupóst á kórinn og segja honum að slaka ekki á fyrir þriðjudaginn. Þetta er alveg stórhættulegt.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Skrambinn!
Æfingin fyrir aðventutónleikana gekk allt of vel. Hlutir sem hafa aldrei almennilega virkað smullu allt í einu saman í kvöld. Um að gera að fólk verði á tánum á sunnudaginn. Það verður töluverð hreyfing á kórnum og ég held að það myndi mjög góða stemningu.
Þetta verður þrusuflott!

þriðjudagur, desember 05, 2006

Litli kútur er orðinn 79 cm og tæp 10 kg að þyngd. Sama sagan og áður... langur og mjór. Ég las einmitt um daginn að börn fá lengdina frá föður og þyngdina frá móður. Ég var alltaf höfðinu hærri en aðrir krakkar fram að fermingu. Það sem hann hefur fengið fleira frá mér er gott ónæmiskerfi, ég verð eiginlega aldrei veikur og hann hefur ekkert veikst eftir að hann byrjaði hjá dagmömmunni sem henni finnst mjög merkilegt. Hann vill heldur ekki blanda saman mat. Í morgun vildi hann t.a.m. ekki blanda saman kjötbollunum, kartöflunum og vildi enga sósu. Þegar ég var lítill dreymdi mig um disk með hólfum til að halda matnum aðgreindum og lengi vel borðaði ég hamborgarann bara í brauðinu og sama átti við pulsur.
Þegar líður að tónleikum Fílharmóníunnar fyllist innhólfið af tölvupósti. Ég ætlaði rétt að tékka á tölvupóstinum í hádeginu og var með 14 ný skilaboð og þurfti að svara þeim flestum. Svo voru önnur 14 í kvöld. Til að gera illt verra þá er bæði tölvan og hotmail frekar hæg á sér. Ég fór í BT til að kaupa vinnsluminni en þar sem tölvan er svo gömul (þriggja ára) þá var ekkert til fyrir mig. Ohhhh hvað ég sakna Makkans!