laugardagur, apríl 02, 2005

Þegar ég sótti um starf organista síðasta sumar þá voru mér boðnar tvær stöður. Ég valdi þessa í Nynäshamn fyrst og fremst út af því að ég hafði frjálsari hendur og réði öllu sjálfur en á hinum staðnum hefði ég starfað undir öðrum organista og bara haft barnakóra. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig það hefði verið að taka hina stöðuna. Sérstaklega þar sem ég sé oft kirkjuna þegar ég tek lestina inn í Stokkhólm. Það hefði í fyrsta lagi verið miklu nær, og ég veit að skipulagið er betra. Þetta með skipulagið fer alltaf meira og meira í taugarnar á mér. Ég talaði reyndar við sóknarprestinn um daginn því mér fannst heilmikið að og allar framfarir ganga alveg rosalega hægt fyrir sig. En síðustu tvær vikurnar er eitthvað farið að gerast.
Ég fór inn á heimasíðu hinnar kirkjunnar til að sjá hvern þeir hefðu ráðið og viti menn! Efst á óskalistanum var sem sagt ég...Íslendingur... og númer tvö var Færeyingur sem heitir því dæmigerða færeysku nafni "Heri Eysturlíð".
Ég er reyndar farinn að hafa meiri áhuga á barna- og unglingakórstarfi og einbeiti mér meira að söngkennslu. Og það er alveg týpískt hvernig allt kemur í bylgjum. Án þess að ég hafi talað neitt sérstaklega um það þá er nú allt í einu sótt að mér úr öllum áttum og beðið um söngkennslu á sama tíma og ég tek upp aftur orgelkennsluna eftir nokkura vikna hlé.

Engin ummæli: