mánudagur, mars 28, 2005

Þá er þvottavélin komin í gang. Það tók okkur bara tæp fjögur ár. Það var nefnilega þannig að Pabbi átti hana og sumarið eftir að hann dó þá skiptum við systkinin eigum hans á milli okkar og ég fékk þvottavélina. En þar sem við vorum að flytja út til náms þá ákvað ég af einhverjum ástæðum að það væri ekki sniðugt að taka hana með út þar sem maður fékk ókeypis aðgang að þvottavél og við þurftum að lifa á námslánum í nokkur ár. Ég sá frekar fljótt eftir því að hafa alla vega ekki tekið hana með því það hefði ekki kostað neitt meira. Og svo tókum við hana með síðasta sumar og settum hana niður í geymslu. Því þó svo að við værum á föstum launum þá vorum við með aðgang að betra þvottaherbergi og auðveldara að bóka tíma. Ég alltaf að spara.
En eftir nokkrar vikur hér í Stokkhólmi þá vorum við tilbúin fyrir næsta skref sem var að flytja vélina upp í íbúðina. Nokkrum vikum seinna hringdi ég í húsvörðinn og spurði hvað þurfti að gera til að tengja hana, nokkrum vikum eftir það þá var hringt í tengigæja, það var reyndar ekkert svo auðvelt að vita hvern maður ætti að tala við og hin og þessi fyrirtæki mjög svo hissa að ég skuli hafa hringt í þau og ekki beint tilbúin að segja mér hvert ég ætti að snúa mér. Svo kom dúdinn en sagði mér að kaupa millistykki fyrir vatnsúttakið. Eftir nokkra daga fór ég í búðina en láðist að taka mál af krananum, ég hélt að þetta væri standardstærð. Í næstu ferð fann ég rétta stykkið en viti menn að það lak út um það þegar ég skrúfaði frá. Hvað gera menn þá? Nokkrum dögum síðar keypti ég þéttingslímband og hvað heitir það á sænsku? Jú, það heitir "gängtätningstejp". En nú erum við sem sagt búin að prufukeyra hana, meira að segja tvisvar, og Skrámur sat agndofa og glápti á þetta skemmtiprógram í klukkutíma.

Engin ummæli: