laugardagur, febrúar 25, 2006

Nemendur mínir voru að spila á tónleikum í dag, 17 af 22. Stóðu sig öll mjög vel enda hafði ég valið tónleikalag fyrir nokkrum vikum og þau voru flest öll búin að ná því utanbókar í síðustu viku. Ég ætla ekki að velja lag svona snemma hjá þeim yngstu fyrir næstu tónleika. Einn átta ára hvíslaði að mér þegar ég var að stilla píanóstólinn: "Ég er kvíðinn." Hann vildi endilega hafa nóturnar fyrir framan sig þótt hann kynni lagið utan að. En svo spilaði hann voða vel. Á fyrstu tónleikunum í haust mætti hann en þorði ekki að spila þ.a. ég var feginn að hann dreif í þessu núna.

Við erum að fara í útskrift til Hjalta mágs míns, sagnfræðings. Hann er reyndar í masternámi núna og átti að útskrifast með BA gráðuna í haust en fékk þá að vita að hann vantaði einn kúrs upp á sem var kenndur þegar hann var úti í Noregi. Það var búið að segja við hann að hann þyrfti ekki að taka hann og fékk undanþágu en kerfið myndi ekki ná að afgreiða þetta fyrir útskrift og því varð hann að bíða þangað til núna. En í gær fór hann spyrjast fyrir niðri í Háskóla og kom þá í ljós að hann útskrifaðist eftir allt í haust en það gleymdist bara að láta hann vita. Hann mætti því ekki í sjálfa athöfnina í dag enda ekkert skírteini til að taka á móti.

Svo er Jóna hans Gunnars á spítala í rannsóknum. Hún er búin að vera mjög andstutt síðustu vikurnar. Við vonum bara að þetta fari allt á besta veg.

Engin ummæli: