laugardagur, ágúst 18, 2007

Pirraður!

Ég er eitthvað illa fyrir kallaður í dag og læt ýmis smáatriði fara í taugarnar á mér. Ég held það sé vegna þess að ég hef voða lítið getað hreyft mig í vikunni verandi fastur heima með Hr. Hlaupabólu og svo svaf ég svo illa í nótt þar sem hann var alltaf að vakna greyið kúturinn. Ég fór með Fílharmóníuna í dag til að koma fram á Söngveislu Söngskólans og það heppnaðist mjög vel því það var mikið af fólki og veðrið var svo gott og góð stemmning og þetta gekk allt svo vel fyrir sig. Svo var ég beðinn um að hoppa inn í Kammerkór Langholtskirkju sem ég og gerði og söng með þeim nokkur lög, þar af tvö sem ég kunni tæplega. Þegar þetta var svo búið hafði enginn vit á að þakka mér fyrir þetta nema Sibbí. Þetta fór alveg ferlega fyrir brjóstið á mér, sérstaklega af því að þetta var ekki í fyrsta skiptið sem þetta kemur fyrir.
Svo bentu nokkrir Fílufélagar á að hvergi var minnst á í fréttatilkynningum að Fílharmónían myndi koma fram. Í einni voru meira að segja allir kórarnir taldir upp og stjórnendur þeirra nema ég og Fílan. Í dag fór þetta alveg ferlega í taugarnar á mér enda kom ég þessari athugasemd á framfæri við skipuleggjendur. Ég er reyndar á þvi núna að þetta sé slys og að það hafi óvart klippst aftan af tilkynningunnni.
Svo þegar ég kom heim var Hrafnhildur svo pirruð á Ísak sem hafði verið alveg sérstaklega önugur og sérvitur. Hann fór t.a.m. alveg að hágráta því hún hafði ekki sett rúsínurnar í rétta skál. Við ákváðum að í stað þess að við værum öll heima í kvöld að pirrast hvort á öðru þá myndi hún fara niður í bæ með fjölskyldunni og ég gæti fengið útrás á blogginu.

Engin ummæli: