þriðjudagur, október 18, 2005

Ég er búinn að fá tvenns lags stimpil á mig í Uppsala. Annars vegar að ég mæti alltaf of seint og það er reyndar ekki að ástæðulausu því mér hefur bara einu sinni tekist að mæta á réttum tíma í tónfræðitímana sem eru klukkan hálf ellefu. Ég þarf sem sagt að taka strætó, lest og svo aðra lest til að komast á leiðarenda og fyrst missti ég af lestinni frá Stokkhólmi því ég hélt að hún færi á 20 mín. fresti en ég kom rétt rúmlega hálf tíu og rétt missti af lestinni og það fór engin önnur fyrr en kl. 10.10. Næsta mánudag tók ég strætó korteri fyrr en þá var lestin frá Södertälje 10 mín of sein og ég missti aftur af hinni lestinni og þurfti að bíða í 40 mín. og mætti því 40 mín. of seint í tímann. Næsta mánudag tók ég strætó ennþá fyrr en þá var alsherjarstopp í lestarkerfinu og ég mætti klukkutíma of seint í tímann ásamt þremur öðrum nemendum sem betur fer. Næsta mánudag tókst mér að mæta á réttum tíma og í síðustu viku var ég eitthvað slappur og fór ekkert til Uppsala. Í gær tók ég strætó hálf níu og þá var lestin korter of sein og ég þurfti aftur að bíða í 40 í Stokkhólmi. Og þegar ég mætti í tímann sagði kennarinn: "Nei, blessaður Magnús. Nú ertu BARA 42 mín. of seinn."

Hinn stimpillinn sem ég hef fengið á mig er að ég sé einhver snillingur. Þessi sami tónfræðikennari lét okkur hafa verkefni í generalbassa og á meðan allir áttu að gera verkefni nr. 5 fór hann sérstaklega fram til að ljósrita handa mér verkefni nr. 74 og sagði að þetta væri kannski allt of létt fyrir mig, sem það var nú reyndar ekki. Ég lærði generalbassa í eina önn í Gautaborg þegar við vorum í sembaltímum og ég sinnti því ekkert sérstaklega vel þar sem við höfðum þrettánhundruð önnur fög, þannig að ég er ekkert sérstaklega fær í að spila generalbassa. Svo sagðist einn nemandinn ætla að fá lánað strokleður frá mér þegar við áttum að skrifa út tóndæmi og sagði að það væri ábyggilega allt í lagi því "Magnús gerir örugglega aldrei mistök."
Mér gengur reyndar alveg ágætlega í þessu námi en að ég sé svona mikill snillingur er ég ekki alveg sammála. Og þeir sem þekkja mig best vita að mér er illa við að vera ofhælt. Þetta getur farið mjög í taugarnar á Hrafnhildi þegar hún er að reyna að hæla mér og mér finnst ég ekki eiga innistæðu fyrir því.
Það fer auðvitað líka í taugarnar á mér þegar ég er vanmetin. Það gerðist t.a.m. í Gautaborg þegar ég var í litúrgísku orgelspili. Ég hafði fengið mjög lága einkunn í því fagi í inntökuprófinu en ég lagði mig mikið fram til að ná hinum í bekknum en samt talaði kennarinn alltaf við mig eins og ég væri 6 ára: "Þetta var bara fínt hjá væni! Miklu betra en síðast." Þetta gat hún sagt margar vikur í röð þó svo ég hafi spilað jafn vel ef ekki betur en hinir í hópnum. Hún var bara búin að stimpla mig sem lélegan í þessu fagi. Í síðasta prófinu í fyrra vor var ég sá eini sem náði í bekknum mínum en þá var þessi kennari hættur þannig að ég náði ekki að núa henni því um nasir.

Í kvöld byrjum við í Mikaeli að æfa Requiem eftir Faure. Það verða tvær æfingar og svo konsert. Þetta er nú meira tempóið á þessum kór.

Engin ummæli: