mánudagur, maí 16, 2005

Allt er þegar þrennt er

Þegar ég vaknaði í morgun hugsaði ég með mér: "Átti ég kannski að undirbúa eitthvað fyrir inntökuprófið í Uppsölum í kvöld?" Mig rámaði í að hafa séð einhvers staðar talað um einhver verk sem átti að stjórna og spila. Þá var bara að leita. Var það á heimasíðunni, tölvupósti eða á einhverjum pappírum. Ég fann það loks á umsóknareyðublöðunum og viti menn, þar stóðu tvö verk sem átti að undirbúa. Þegar ég las þetta á sínum tíma hélt ég ábyggilega að ég myndi fá þetta sent og svo var maður veikur og svoleiðis og var ekkert að pæla í þessu.
Ég fann verkið sem átti að spila í nótnabunkanum en hitt hafði ég aldrei heyrt um. Leitaði að því á netinu og fann það undir öðru heiti en forlagið átti það ekki á lager en sem betur fer var það til í tónlistarbúð inni í Stokkhólmi. Ég keypti það og stúderaði í lestinni. Þetta reyndist vera Adam átti syni sjö en allt önnur melódía en sú íslenska (eða danska) og svo var þetta mikil pólófónía og ólíkar taktegundir. Ég komst sem sagt aldrei í neitt hljóðfæri fram að prófinu og varð að reiða mig á tónheyrnarkunnáttuna en það gekk samt mjög vel. Ég stjórnaði sem sagt bara píanista og hann gleymdi meira að segja einni endurtekningunni og en sagði hann hefði áttað sig strax á því út frá hreyfingunum mínum og fannst það mjög gott.

Það borgar sig greinilega að vera dálítið kærulaus. Ég undirbjó mig mjög mikið fyrir hin prófin en komst ekki inn í Köben og var komin hálfa leið inn í Stokkhólm áður en ég hætti við og svo flaug ég inn í Uppsali eiginlega án þess að reyna. Þetta er eins og í fyrra þegar ég fór í þrjú atvinnuviðtöl. Ég lagði mig allan fram við það fyrsta, mætti vel klæddur, úthvíldur og reyndi að virka voða fagmannlegur en fékk ekki starfið (ég held reyndar að þeir hafi viljað konu sem hefur mikla reynslu af barnakórum og vön að takast á við félagsleg vandamál). Í hinum tveimur mætti ég frekar druslulega til fara, þreyttur eftir að hafa rifið mig upp kl. 5 um morguninn og keyrt í rúmlega 5 tíma og var mjög óformlegur í viðtölunum (sérstaklega því fyrr því ég var viss um að fá ekki starfið) en var boðnar báðar stöðurnar.

Það var mjög fallegt í Uppsala í dag. Það er allt svo snyritlegt, allir á hjólum og nánast engin bílaumferð í miðbænum. Skólahúsnæðið er líka frekar aðlaðandi og virðist vera góð aðstaða. Þetta er greinilega háskólabær því í mörgum búðum er tekið fram hversu mikinn stúdentaafslátt er gefinn.

Engin ummæli: