þriðjudagur, desember 18, 2007

Síðustu tónleikarnir mínir í ár verða í Kristskirkju föstudaginn 28 des. kl. 20.00. Þar flytjum við í Hljómeyki Náttsöngva (stundum kallað Vesper) eftir Rachmaninoff. Þetta er alveg meiriháttar stykki í 15 köflum, sungið acapella og á rússnesku og tekur um klukkutíma í flutningi. Mig hefur dreymt um að flytja þetta stykki, ýmist sem söngvari eða stjórnandi, frá því ég heyrði það fyrst í Vasakirkjunni í Gautaborg fyrsta veturinn minn þar. Við erum búin að glíma við þetta í allt haust og held að þetta eigi eftir að heppnast mjög vel. Bassarnir hafa alla vega notið sín því þeir fá að syngja ansi langt niður, nokkrum sinnum niður á djúpa B. Miðar fást hjá kórfélögum, í 12 tónum og við innganginn, þ.e. ef ekki verður uppselt. Kirkjan tekur nefnilega ekkert sérlega marga.

Annars hefur verið ansi mikið um að vera á aðventunni. Ég fór austur til Kára til að spila á aðventutónleikum ásamt Jóhanni Friðgeiri. Ég spilaði að miklu leyti á hörpu! Tónleikarnir voru kl. 16 á Eskifirði á sunnudeginum og við ætluðum að ná flugvélinni frá Egilsstöðum kl. 18. Við hlupum út strax eftir lokatóninn, ég, Jói og tvær stelpur úr hljómsveitinni. Svo var svo svakaleg blindhríð að við þurftum að keyra á 20 km hraða og mættum á flugvöllinn tíu mín. eftir að vélin fór. Ég missti af Hljómeykisæfingu, Jói átti að syngja á aðventukvöldi í Bústaðarkirkju og fiðluleikarinn varð að hafna einu giggi. Svona erum við gráðug þetta tónlistarfólk.

Ég spilaði svo líka á tónleikum hjá Steina í Neskirkju þar sem flutt var tveggja tíma verk eftir Handel fyrir kór, einsöngvara og barokksveit. Ég spilaði á orgel úr Seltjarnarneskirkju og þurfti að plokka hverja einustu nótu út og færa hana niður um eitt sæti. Það gekk alveg nema fyrir neðstu áttundina og gat ég því ekkert notað hana sem var dálítið ruglandi. Svo var orgelið ekki beint hreint í þessari stillingu og ég þurfti að vera mjög vakandi yfir hvaða hljóma ég spilaði, eða öllu heldur hvernig ég spilaði þá. En tónleikarnir heppnuðust vel og vöktu mikla hrifningu.

Fílharmónían söng 8 des í dagskrá í Hallgrímskirkju í forföllum fyrir annan kór og hélt svo sína aðventutónleika 9 og 12 des í Langholtskirkju. Það var alveg þrusustemmning og margir alveg yfir sig hrifnir, sérstaklega af lagavalinu enda gekk ég nokkurn veginn frá því í ágúst. Stykkið mitt frá í fyrra vakti mikla hrifningu, bæði meðal kórfélaga og áhorfenda sem og útsetning Trond Kvernos á Heims um ból.

Á sunnudaginn var svo aðventukvöld í Áskirkju þar sem m.a. var flutt Maríumúsík eftir Anders Öhrwall fyrir kór, upplestur og fimm manna hljómsveit. Það svínvirkaði sem betur fer enda mjög grípandi stykki sem hentar vel fyrir svona guðsþjónustur. Ég reikna með því að flytja það aftur að ári enda var formaður sóknarnefndar mjög ánægður með það og vonandi verður ekki vandamál að fá fjármagn

Annars er það af fjölskyldunni að frétta að Ísak er örugglega kominn á "The terrible two" aldurinn. Hann er búinn að öskra og væla í allan dag og gera foreldra sína brjálaða. Dagmamman hans hættir núna á fimmtudaginn en hann kemst nokkuð örugglega inn á Leikskóla Kfum og k í janúar og við erum alveg hæstánægð með það.

Engin ummæli: