sunnudagur, desember 10, 2006

Það myndaðist rosalega góð stemning á tónleikunum í kvöld. Og kórinn hefur aldrei sungið svona vel. Það var virkilega flottur og jafn hljómur í honum. Þetta gekk líka alveg snuðrulaust fyrir sig. Meira að segja allar tilfærslur á kórmeðlimum.
Þetta er í þriðja skiptið sem ég stjórna tónleikum með Fílharmóníunni og í öll þrjú skiptin hefur sópransólistinn verið veikur. Hulda Björk var með kvef og átti í erfiðleikum með neðra sviðið á æfingunni en fór létt með háu tónana. Svo var ekkert að heyra að hún væri veik á tónleikunum. Hún heillaði alla upp úr skónum. Ekki síst kórmeðlimi.
Nú er ég búinn að senda tölvupóst á kórinn og segja honum að slaka ekki á fyrir þriðjudaginn. Þetta er alveg stórhættulegt.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Skrambinn!
Æfingin fyrir aðventutónleikana gekk allt of vel. Hlutir sem hafa aldrei almennilega virkað smullu allt í einu saman í kvöld. Um að gera að fólk verði á tánum á sunnudaginn. Það verður töluverð hreyfing á kórnum og ég held að það myndi mjög góða stemningu.
Þetta verður þrusuflott!

þriðjudagur, desember 05, 2006

Litli kútur er orðinn 79 cm og tæp 10 kg að þyngd. Sama sagan og áður... langur og mjór. Ég las einmitt um daginn að börn fá lengdina frá föður og þyngdina frá móður. Ég var alltaf höfðinu hærri en aðrir krakkar fram að fermingu. Það sem hann hefur fengið fleira frá mér er gott ónæmiskerfi, ég verð eiginlega aldrei veikur og hann hefur ekkert veikst eftir að hann byrjaði hjá dagmömmunni sem henni finnst mjög merkilegt. Hann vill heldur ekki blanda saman mat. Í morgun vildi hann t.a.m. ekki blanda saman kjötbollunum, kartöflunum og vildi enga sósu. Þegar ég var lítill dreymdi mig um disk með hólfum til að halda matnum aðgreindum og lengi vel borðaði ég hamborgarann bara í brauðinu og sama átti við pulsur.
Þegar líður að tónleikum Fílharmóníunnar fyllist innhólfið af tölvupósti. Ég ætlaði rétt að tékka á tölvupóstinum í hádeginu og var með 14 ný skilaboð og þurfti að svara þeim flestum. Svo voru önnur 14 í kvöld. Til að gera illt verra þá er bæði tölvan og hotmail frekar hæg á sér. Ég fór í BT til að kaupa vinnsluminni en þar sem tölvan er svo gömul (þriggja ára) þá var ekkert til fyrir mig. Ohhhh hvað ég sakna Makkans!

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Þá fer að koma að flottustu aðventutónleikum ársins (svo verður Hljómeyki með flottustu jólatónleikana 28. des). Það verður alveg fullt af flottum útsetningum, m.a. ein sem Trond Kverno gerði við Heims um ból og verður sungið á norsku, eitt úkraínskt jólalag, amerískt, sænskir piparkökukarlar, þó nokkur lög um Mariu mey auk hefðbundinna jólalaga og svo verður frumflutt verk eftir mig! Kórinn er í hörkustuði og búinn að standa sig mjög vel í að læra þó nokkur ný og erfið lög. Sum eru mjög rytmísk og ég var alveg hissa hvað þau voru fljót að ná þeim. Miðar kosta 2500 kr. en bara 2000 í gegnum mig og kórfélaga.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Elsku Ísak

Til hamingju með afmælið. Það er ótrúlegt að það sé liðið ár frá því þú fæddist. Á þessu ári hafa skipst á skin og skúrir en maður man eiginlega bara góðu stundirnar. Við erum nánast búin að gleyma andvökunóttunum þegar þér leið svona illa í maganum og vistin á fæðingadeildini er sveipuð dýrðarljóma þó svo þar hafi mikill sársauki átt sér stað.
Mér datt ekki í hug að hjartað í mér gæti stækkað svona mikið. Við elskum þig meira með hverjum deginum sem líður. Þú bræðir mann með bjarta brosinu þínu og maður stendur agndofa í hvert skipti sem þú tekur upp á einhverju nýju, eins og að ganga nokkur skref óstuddur. Það er svo gaman að leika við þig og ég reyni vísvitandi til að fá þig til að hlægja því það gerir manni svo gott að heyra smitandi hlátur þinn. Það er svo gaman að sjá þig dilla þér í takt við vissa tónlist og það gleður mig að sjá hvað þér finnst gaman að spila á hljóðfæri eins og blokkflautu, munnhörpu og sílafón.
Hér efst er mynd þar sem afi Halldór er að gefa þér fyrsta kökubitann þinn en ég læt líka fylgja með mynd af mér í fanginu á ömmu Mús þegar ég var á þínum aldri.
Eins og afi þinn Ragnar átti til að segja þá er ég algjör PM (Pabbi mont)

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Ég var að koma af Sinfóníutónleikum þar sem Hljómeykisstúlkurnar mínar sungu nokkra takta í lokin á Parsifal og gerðu það alveg æðislega fallega. Það var líka mjög gaman að upplifa þennan Wagnerþátt. Heyrði lokin á honum í morgun og varð mjög heillaður. Þetta byrjaði mjög þunglyndislega en varð svo mjög fallegt eftir því sem leið á.
Svo var mjög gaman á Fílharmóníuæfingu í gær. Ég er alltaf að prufa mig áfram með verkið mitt og gat í samvinnu við kórinn leyst ákveðið vandamál og er mjög sáttur við þá útkomu.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Ég er búinn að setja barnalæsingar á eldhússkápana því junior hefur verið mjög iðinn við að tína út úr þeim undanfarnar vikur. Læsingarnar hafa virkað mjög vel, einum of vel reyndar því við gleymum þeim alltaf. Maður ætlar að henda einhverju í ruslið og... æ já, það er barnalæsing. Og svo mínútu síðar vill maður aftur í ruslið og.... æ, já, það er barnalæsing.
Svo tók bíllinn upp á því að bila. Þegar það gerði svona mikið frost um daginn fór hann að hegða sér eitthvað undarlega og kom meira að segja reykur úr húddinu. Ég fór með hann á næsta verkstæði og sagði hvað gerst hefði og gæjinn spurði hvort það væri ekki örugglega nægur frostlögur á honum. Ég sagði: fröst....lö....gur? Hmmm. Það gæti kannski verið að það vanti bara alveg.
Vatnskassinn hefur nebblega lekið við og við en samt er ekkert að honum. Þetta er víst algengt vandamál með Opel. En ég hef verið voða duglegur að bæta á hann vatni í allt sumar. En nú er ég sem sagt búinn að komast að því til hvers frostlögur er. Það er til þess að vatnið frjósi ekki og eyðileggi ekki vatnskassann. Jæja. Það var ekkert SVO dýr viðgerð og við gátum notast við jeppann hans tengdapabba þann dag sem bílinn var í viðgerð en svo þegar búið var að setja nýjan vatnskassa í var samt eitthvað að. Headpackningin sennilega farin. Jibbí! Bílinn fór á næsta verkstæði og alltaf lét ég eins og þetta væri ekki mér að kenna: "Ég held bara að það hafi ekki verið sett á hann nægur frostlögur" eins og ég væri að kenna öðrum fjölskyldumeðlimum um. En bílinn á að vera tilbúinn í dag og við verðum ca. 160 þúsund kalli fátækari.
Mental note: Setja frostlögsblöndu í vatnskassann ef vantar!

föstudagur, nóvember 17, 2006

Það lítur út fyrir það að ég sé að fara að vinna fyrir Sinfó. Hljómeyki var beðið að syngja í styttri útgáfu af Carmen í júní. Það er ágætt að vera kominn með annan fótinn þar inn sem kórstjóri.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Hvernig er hægt að vera svona sætur? Í alvörunni!

mánudagur, nóvember 13, 2006

Kóræfingar ganga glimrandi vel. Ég valdi nokkuð strembin verk fyrir Fílharmóníuna en það hefur borgað sig. Eftir rúmlega mánuð er þetta mikið til komið og það eru tæpar fjórar vikur í tónleika. En það má alltaf fínpússa. Tónleikar 10. og 12. des. í Langholtskirkju.
Svo er svo gaman í Hljómeyki núna því það er svo vel mannað. Það eru um 6 í hverri rödd. Góður ballans. Tónleikar 28. des. í Seltjarnarneskirkju.
Gaman að vera með þessa tvo kóra sem eru svo ólíkir á skemmtilegan hátt.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Ég fékk mitt hefðbundna stress í morgun fyrir tónleikana okkar Ingibjargar. Ég er alltaf á því að enginn muni mæta. Ég var búinn að búa mig undir það að Mamma og Hrafnhildur myndu mæta og kannski einn í viðbót. En það mætti þó nokkrir fleiri þrátt fyrir eiginlega enga kynningu (mér að kenna). Þetta fór barasta vel í fólk og ég held við höfum bara spilað ágætlega. Ég datt reyndar út á tveimur stöðum í Mahler og impróviseraði eitthvað í staðinn og kom sjálfum mér á óvart hvað það var í Mahlerískum anda.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Ha? Heiti ég Ragnar Sigurðsson þegar ég stjórna Hljómeyki en Magnús Ragnarsson þegar ég stjórna Fílharmóníunni? Ég hef oft verið kallaður Ragnar en hvaðan kemur eiginlega Sigurðsson?

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Eitt hefur sonur minn erft frá mér. Hann er mjög matvandur. Ég var það sem krakki. Mér var oft hent öskrandi inn í herbergi því ég harðneitaði að borða eitthvað framandi. Hann herpir saman munninn og snýr sér í hina áttina. Hann er álíka þrjóskur og ég. Aðlögunininni er formlega lokið og hefur gengið alveg glimrandi vel. Kristjana hefur eiginlega aldrei upplifað annað eins.
Ég og Ingibjörg erum með tónleika á laugardaginn kl. 13.00 í Breiðholtskirkju í tilefni af allra heilagra messu. Þetta eru fyrstu tónleikar mínir í kirkjunni og ég vona svo innilega að sem flestir komi. Það kostar ekkert inn og tónleikarnir taka bara ca. 45 mín. Við ætlum að leika ýmis lög, m.a. eftir Jórunni Viðar, Atla Heimi, Telemann, mjög fallegt lag eftir Sandström og kannski eftir mig, þ.e. op. 1 sem ég samdi fyrir horn og orgel. Þurfum að sjá hvort það gangi að tónflytja það þannig að það passi fyrir básúnu. Svo flytjum við Söngva förusveins eftir Mahler. Við spiluðum það í fyrra í Svíþjóð og Hrafnhildur kom að hlusta og var svo ofboðslega hrifin af því. Það var á þeim tónleikum sem við buðum einum rónanum (sem var fastagestur í kirkjunni) að koma en hann sagðist vera upptekinn. Hann sá ekki fram á að vera edrú á þessum tíma, þ.e. kl. 12 á laugardegi.

Annars var ég að klára opus 2 í gærkvöldi. Ég byrjaði reyndar að semja það fyrir rúmu ári en strandaði á einum stað. Svo byrjaði ég aftur á föstudagskvöldið og komst á flug. Ég ætla að æfa þetta í kvöld með Fílunni en er alveg svakalega nervus við það, er svo hræddur um að þau fari bara að hlægja yfir hvað textinn passar asnalega við tónlistina. Þetta var nú ekki auðveldasti texti í heimi, ansi langur og óreglulegur.