þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Takið nú fram dagatalið og merkið inn mikilvægar tónleikadagsetningar fyrir haustið.

Helgina 6 og 7 október kl. 17.00 flytur Fílharmónían klezmer tónlist í Seltjarnarneskirkju ásamt Hauki Gröndal og nýstofnuðu bandi hans og Ragnheiði systur hans.

Laugardaginn 3 nóvember syngur Hljómeyki Vakna þú sál mín eftir Jón Þórarinsson á tónleikum í Dómkirkjunni í tilefni af níræðis afmæli tónskáldsins. Kór Langholtskirkju og Dómkórinn flytja einnig kórverk eftir Jón og Marteinn leikur á orgelið.

Sunnudaginn 11 nóvember kl. 18 í Seltjarnarneskirkju flytur Hljómeyki hið frábæra Vesper eftir Rachmaninoff

Sunnudaginn 9 og miðvikudaginn 12 desember stendur Fílharmónían fyrir aðventutónleikum kl. 20 í Langholtskirkju. Þeir verða með svipuðu sniði og í fyrra enda heppnuðust þeir alveg einstaklega vel. Nanna María Cortes syngur með sinni silkimjúku rödd og Steingrímur orgelsnillingur spilar með.

Föstudaginn 28 desember verður Hljómeyki með jólatónleika í Seltjarnarneskirkju kl. 20.
Það verður pottþétt flott tónlist í mjög góðum flutningi.

Fimmtudaginn 13 mars kl. 19.30 flytur Fílharmónían Þýsku sálumessuna eftir Brahms ásamt Sinfóníunni.

Svo koma dagsetningar fyrir kór Áskirkju bráðum.

laugardagur, ágúst 18, 2007

ÚBS!

Ég fann eftirfarandi á bloggsíðu Ólafs Kjartans:

"Ég gerði mér það að leik að “gúgla” sjálfan mig til þess að athuga hvort eitthvað væri að finna um tónleikana. Það eina sem ég fann af viti var af bloggsíðu kórstjóra Hljómeykis, en þar segir um óperutónleika sem haldnir voru á Klambratúni í fyrra:
Það var bara voða gaman á óperutónleikunum á Klambratúni í gær, skemmtileg stemmning og gaman að svona sé hægt að gera á Íslandi. Að vísu var hljóðið ekki upp á sitt besta og aríurnar komu misvel út. Svo er ég orðinn ansi þreyttur á því þegar óperusöngvarar ákveða að sprella eitthvað á sviðinu eins og Kristinn og Ólafur Kjartan gerðu í lokin. Það er alltaf boða barnalegur húmor og fer bara í taugarnar á mér.”
Ef ég bara myndi hvað í ósköpunum við Kristinn gerðum af okkur þarna um árið. Verð að spyrja karlinn betur út í þetta :-)"

Pirraður!

Ég er eitthvað illa fyrir kallaður í dag og læt ýmis smáatriði fara í taugarnar á mér. Ég held það sé vegna þess að ég hef voða lítið getað hreyft mig í vikunni verandi fastur heima með Hr. Hlaupabólu og svo svaf ég svo illa í nótt þar sem hann var alltaf að vakna greyið kúturinn. Ég fór með Fílharmóníuna í dag til að koma fram á Söngveislu Söngskólans og það heppnaðist mjög vel því það var mikið af fólki og veðrið var svo gott og góð stemmning og þetta gekk allt svo vel fyrir sig. Svo var ég beðinn um að hoppa inn í Kammerkór Langholtskirkju sem ég og gerði og söng með þeim nokkur lög, þar af tvö sem ég kunni tæplega. Þegar þetta var svo búið hafði enginn vit á að þakka mér fyrir þetta nema Sibbí. Þetta fór alveg ferlega fyrir brjóstið á mér, sérstaklega af því að þetta var ekki í fyrsta skiptið sem þetta kemur fyrir.
Svo bentu nokkrir Fílufélagar á að hvergi var minnst á í fréttatilkynningum að Fílharmónían myndi koma fram. Í einni voru meira að segja allir kórarnir taldir upp og stjórnendur þeirra nema ég og Fílan. Í dag fór þetta alveg ferlega í taugarnar á mér enda kom ég þessari athugasemd á framfæri við skipuleggjendur. Ég er reyndar á þvi núna að þetta sé slys og að það hafi óvart klippst aftan af tilkynningunnni.
Svo þegar ég kom heim var Hrafnhildur svo pirruð á Ísak sem hafði verið alveg sérstaklega önugur og sérvitur. Hann fór t.a.m. alveg að hágráta því hún hafði ekki sett rúsínurnar í rétta skál. Við ákváðum að í stað þess að við værum öll heima í kvöld að pirrast hvort á öðru þá myndi hún fara niður í bæ með fjölskyldunni og ég gæti fengið útrás á blogginu.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Maður heldur alltaf að það sé eiginlega enginn sem lesi þessi blogg nema þeir sem kommenta og nánasta fjölskylda. Ég var hins vegar að skrá mig á síðu sem heitir Google analytics þar sem hægt er að fylgjast með því hversu margir skoða bloggsíðuna og hægt að fá alveg ótrúlega margar upplýsingar um heimsóknirnar, af hvaða síðu fólk kemur, tengingarhraðann, vafrann, frá hvaða landi, hversu lengi dvalið er á síðunni, í hvaða tilvikum kom síðan mín upp þegar slegið var upp leitarorði og hvaða orð það var, t.d. Voces masculorum, h-moll messan, dýralæknir í Stokkhólmi og forskalað! Þetta eru væntanlega orð sem ég hef notað í þessu bloggi einhvern tímann. Ég veit að þetta er alveg ótrúlega nördalegt en mér finnst dálítið áhugavert að skoða þetta og kom verulega á óvart hversu margir skoða þetta röfl mitt.

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Ó nei!

Ísak er kominn með hlaupabólu. Jökull frændi hans var með alveg svakalegar bólur hér um daginn sem eru að hverfa núna. Ég held það sé alveg mánuður síðan hann fékk þetta og við héldum að Ísak hefði sloppið. Vonandi verður þetta bara vægt tilfelli. Það er samt ágætt að ljúka þessu af og þetta er bara ágætis tími fyrir þetta á meðan hann er svona lítill og við getum verið heima með honum en ekki bundin of mikið í vinnu.

mánudagur, ágúst 13, 2007

Yes!

Ísak er búinn að fá pláss hjá dagmömmu! Við vorum farin að örvænta. Kristjana sem hann var hjá í vetur ákvað að skipta um starf og hætti 1.júní. Það var mikil eftirsjá af henni en þá var Ísak samt búinn að fá inni á leikskólanum hér við hliðina. Svo vantar starfsfólk þannig að við vitum ekki hvenær hann fær að byrja. Við erum búin að vera í svo góðu sumarfríi að það hefur ekki verið neitt mál að hafa hann heima og þetta reddast alveg út mánuðinn en svo fór maður að heyra fréttir af því að krakkar kæmust jafnvel ekki inn fyrr en um jólin. Það fannst okkur nú ekki mjög ánægjulega fréttir. En það ætlar ein að taka hann að sér frá og með mánudeginum þar til hann kemst inn og við getum farið að sinna okkar vinnu að degi til.

sunnudagur, júlí 15, 2007

Nú er ég loksins kominn heim eftir vikudvöl í Skálholti, ég saknaði fjölskyldunnar alveg svakalega í lokin. Ísak var enda mjög glaður að sjá mig, hafði aðeins spurt um mig við og við. En Hljómeyki var í svaka stuði og söng oft alveg geððððððveikislega vel á tónleikunum í gær fyrir nánast fullri kirkju. Það var alveg mjög góð stemning í hópnum og frábært veður gerði það að verkum að þessi vikudvöl var alveg yndisleg. Það hefði verið gaman að drífa sig út í keppni með þennan hóp. Ég sá líka eftir því að hafa ekki komið með nótur að Rachmaninoff sem við ætlum að flytja í haust. Æfingarnar gengu það vel að það hefði alveg gefist tími til að foræfa það. En mér datt í hug og viðraði þá við Sigga Halldórs að við flyttum það verk næsta sumar í Skálholti ásamt messunni eftir Svein Lúðvík sem átti að flytja núna. Ég talaði um að kannski væri hægt að flytja Vesperið á fimmtudagskvöldinu og svo Svein Lúðvík á laugardegi og svo aftur í messunni á sunnudeginu. Honum þótti þetta mjög góð hugmynd og var einmitt búinn að hugsa um að hafa 19. aldar tónlist
á fimmtudagskvöldum. Verkið er reyndar samið 1915 en það sleppur nú alveg. En það er bara svo gott að fá að flytja svona frábær verk oftar en einu sinni eins og núna þegar við fluttum aftur Óttusöngvana. Flutningurinn verður líka enn betri þegar það líður smá tími á milli.

mánudagur, júlí 09, 2007

Þeir sem misstu af Óttusöngvunum um daginn skulu drífa sig upp í Skálholt á laugardaginn þar sem Hljómeyki mun flytja þá aftur ásamt fimm öðrum kórverkum eftir Jón Nordal. Og þeir sem misstu ekki af tónleikunum drífa sig auðvitað líka upp eftir þar sem þeir væntanlega þegar hvað þetta er stórbrotið verk. Tónleikarnir hefjast kl. 17 og það er ábyggilega ókeypis aðgangur.

sunnudagur, júní 17, 2007

Móðurbróðir minn hringdi áhyggjufullur í mömmu í dag þar sem hann sá auglýst eftir nýjum organista í Breiðholtskirkju, hélt jafnvel að ég hefði verið rekinn. En ég er sem sagt búinn að segja upp þar því ég ætla að fara yfir í Áskirkju frá og með haustinu. Mér líst bara vel á þá stöðu, ég vann með prestinum árið áður en ég flutti út og það var mjög gott samstarf og svo er nottlega mjög góður kór þar.

föstudagur, júní 08, 2007

Þetta gekk allt mjög vel í gær, allir voru í svaka stuði og móttökurnar alveg frábærar.
Svo var partý eftirá, kom ekki heim fyrr en hálf sex í alveg yndislegu veðri... drakk aðeins of mikið af bjór. En er bara i rólegheitum heima með Ísak í dag á meðan Hrafnhildur vinnur næst síðasta daginn í skólanum.

miðvikudagur, júní 06, 2007

Þá er maður á fullu að æfa fyrir Carmen sem verður á morgun, það er alveg uppselt þannig að þetta er ekki plögg en hægt verður að hlusta á þetta í útvarpinu. Það er alltaf sama vandamálið með þetta hús, það berst eiginlega ekkert fram. Hljómeyki er á fullum krafti nánast allan tímann en það er óttalega dempaður hljómur. Hlakka til að vinna í nýja húsinu og vona svo innilega að það verði vel heppnað.

mánudagur, júní 04, 2007

Nýja fartölvan datt í gólfið um daginn og skjárinn brotnaði. Hún var keypt í gegnum vinnuna en ég var að klára að borga þriðju og síðustu greiðsluna um daginn en hins vegar ekki búinn að fá kvittunina og Árný samstarfskonan mín sem veit hvar kvittunin er hefur verið í kórferðalagi í útlandinu. Þannig að við höfum notað gömlu ógeðslega hægfara fartölvuna sem við keyptum 2002. En þar sem Hrafnhildur fer alltaf með hana í vinnuna á mánudögum vorum við Ísak alveg tölvulausir í dag sem gerði það að verkum að ég fékk ekki tölvupóst frá Sinfó um að hljómsveitarstjórinn kæmi ekki á kóræfingu í kvöld sem var sett á alveg sérstaklega fyrir hann. Ég var samt búinn að biðja Helgu Hauks að hringja í mig við fyrsta tækifæri og reyndi nokkrum sinnum að ná í hana í dag en fékk aldrei svar. Ég fór á hótelið og varð mjög hissa að hann væri ekki búinn að tékka inn og skrifaði skilaboð til hans um að hann ætti að hringja í mig ef hann vildi koma á æfingu. En það kom svo sem ekkert að sök þar sem við gátum bara æft enn betur. Ég er að hugsa um að segja Hljómeyki við og við að það sem að koma útlendur hljómsveitarstjóri á æfinguna þvi aldrei þessu vant voru eiginlega allir mættir á réttum tíma, búnir að stilla upp stólum og settu meira að segja nótnastatíf á mitt gólf. Ég hef ekki hugmynd hvernig þessir Carmen tónleikar eiga eftir að koma út en eitt er víst að kórinn kann orðið sína frönsku!

sunnudagur, maí 27, 2007

Við fórum að horfa á Dýrin í Hálsaskógi í Elliðaardal í dag. Það var barasta mjög skemmtilegt og ekki spillti frábært veður fyrir skemtuninni. Þetta verður sýnt alla miðvikudaga í sumar kl. 18 og maður leggur hjá rafveituheimilinu og fylgir bara skiltunum.

föstudagur, maí 25, 2007

Um síðustu helgi fórum við í bústað og á leiðinni hlustuðum við á Dýrin í Hálsaskógi að beiðni Ísaks. Hann kallar það "mamamei" af einhverjum ástæðum. En ég uppgötvaði nokkuð merkilegt á leiðinni. Hann heitir Hérastubbur bakari en ekki Héraðsstubbur. Ég komst merkilegt nokk að þessu í fyrra líka en náði að gleyma því í millitíðinni.
Svo komst ég að því að Lilli klifurmús er frekar sjálfumglaður karakter, samanber vísan hans:

Ein mús er best af öllum og músin það er ég.
Í heimi mús er engin slík hetja stórkostleg.
Ég geng um allan daginn og gítarinn minn slæ,
en svengi mig á stundum þá syng ég bara og hlæ.
Dúddilían dæ.

og þetta syngur hann fyrir martein skógarmús, sem er mús nóta bene.
"13. ágúst kl. 19.00 Skálholtsdómkirkja
Messa í h-moll BWV 232 eftir Johann Sebastian Bach

Mótettukór Hallgrímskirkju, sem nú fagnar 25 ára afmæli sínu flutti h-moll messuna 1998 í Skálholtsdómkirkju, sem enn er í minnum haft. Nú hljómar þetta stórvirki í fyrsta sinn í Skálholti með barokksveit.

Miðaverð: 4.900/3.600"

Þessi "fyrsta sinn" frasi er orðinn ansi þreyttur. 1998 hefur þetta væntanlega verið í frysta skipti í Skálholti. Hvað er hægt að segja núna... jú í fyrsta skipti í skálholti með barokksveit... og 4900 kr. Er ekki verið að djóka?

Ég fór á masterclass hjá Radulescu á miðvikudaginn. Þvílíkur viskubrunnur. Það vall upp úr honum spekin um Bach og hvernig bæri að túlka orgelverkin hans. Spilastíllinn hans er reyndar af gamla skólanum og algjörlega á skjön við það sem ég lærði í Svíþjóð en samt mjög flottur. Ég fór svo á tónleika í gærkvöldi þar sem hann stjórnaði tveimur kantötum eftir Bach, hann hafði reyndar lokið við aðra sjálfur. Eftirvæntingin var mikil og ég fór líka á æfingu til að fylgjast með vinnubrögðunum hans. Hljómsveitin og Kór Langholtskirkju hljómuðu yfirleitt mjög vel en prófessorinn olli vonbrigðum. Það klikkaði ansi mikið á tónleikum og það skrifast eiginlega allt á hann. Einu sinni duttu eiginlega allir út því slagið var svo óskýrt hjá honum. Hann flautaði meira að segja sólóið í staðinn fyrir óbóið. Það var frekar fyndið.