þriðjudagur, janúar 22, 2008
Mér skilst að það hafi rétt náðst að forða einkavæðingu leikskólanna í haust en ég heyrði ekki betur í gær en að það væri sett aftur á dagskrá.
þriðjudagur, janúar 15, 2008
Plögg
Leikfélagið Hugleikur frumsýnir Útsýni eftir Júlíu Hannam í Möguleikhúsinu laugardaginn 19. janúar kl. 20. Um er að ræða nýtt íslenskt leikverk sem er fyrsta leikrit höfundar í fullri lengd, en Júlía hefur skrifað sjö einþáttunga sem settir hafa verið á svið hjá Hugleik. Þeirra á meðal er Í öruggum heimi sem valin var besta sýningin á stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu vorið 2006 af dómnefnd sem skipuð var Þorvaldi Þorsteinssyni og Þorsteini Bachmann.
Útsýni fjallar um samskipti tveggja hjóna, þar sem eiginmennirnir eru æskuvinir. Verkið er í tveimur þáttum og gerast þeir á heimili hjónanna Björns og Svövu með um árs millibili, en í báðum þáttum taka þau á móti vinahjónum sínum, Hlyni og Elínu. Í verkinu er fylgst með þeim umskiptum sem verða í lífi persónanna fjögurra, bæði vegna breytinga á félagslegri stöðu sem og í innbyrðis samskiptum. Þannig fjallar verkið um þanþol sannrar vináttu, traustið sem ríkir milli einstaklinga í hjónabandi, öfundsýki og sjálfsvirðingu.
Leikstjórn Útsýnis er í höndum gamalkunnra Hugleikara, þeirra Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur, en þau hafa bæði starfað með leikfélaginu í yfir tuttugu ár. Hlutverkin fjögur skipa Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Eysteinsdóttir, Sigurður H. Pálsson og Þráinn Sigvaldason. Höfundur frumsaminnar tónlistar í sýningunni er Gunnar Ben.
Hugleikur var stofnaður árið 1984 og hefur um árabil verið einn virkasti áhugaleikhópur landsins. Hann hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin eru öll samin af félagsmönnum. Umfjöllunarefni leikritanna eru alfarið sprottin úr íslensku þjóðlífi. Oft á tíðum hefur verið leitað fanga í þjóðsagnararfinum, í sögu þjóðarinnar og gullaldarbókmenntunum, en viðfangsefni samtímans hafa á umliðnum misserum fengið aukið vægi. Söngur og tónlist hafa jafnan sett svip sinn á sýningar hópsins.
Hugleikur hlaut sérstaka viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á degi íslenskrar tungu 16. nóvember árið 2006 fyrir stuðning við íslenska tungu. Það sama ár gerði Reykjavíkurborg þriggja ára samstarfssamning við leikfélagið.
Útsýni er klukkustundarlöng sýning og leikin án hlés. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nemendur, elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig bjóðum við hópafslátt fyrir 10 manna hópa og fleiri, en þá er miðaverðið 1.000 kr. Sýningaplan og miðapantanir eru inni á www.hugleikur.is
miðvikudagur, janúar 09, 2008
fimmtudagur, janúar 03, 2008
Þetta er ekki einleikið
Hressir frændur í áramótapartýinu
Ísak og Ragnar Steinn skemmtu sér konunglega í áramótapartýinu hjá Konna frænda. Ísak biður mig oft um að segja sér sögu frá því. Hann varð reyndar mjög hræddur við flugeldana og vildi bara vera inni hjá Indru.
YYYEEESSSS!!!!!

Hann fær að byrja á leikskóla KFUM á mánudaginn. Sem betur fer get ég verið heima í þessari viku og svo verið með honum í aðlögun í næstu viku. Leikskólinn er nálægt Áskirkju þannig að ég mæti bara snemma í vinnuna aldrei þessu vant. Ég var meira að segja að hugsa um að gerast svo snobbaður og fá mér líkamsræktarkort í Laugar. Mér finnst ómögulegt að keyra hann niðureftir og fara svo aftur upp í Orkuverið í Egilshöll þar sem ég hef haft kort í tæp tvö ár. Ég á aldrei eftir að nenna því. Ég get þá skiptst á að fara í ræktina og synda. Okkur líst mjög vel á þennan leikskóla, mun betur en þann sem er hérna við hliðina á okkur og Ísak er enn á biðlista á.
föstudagur, desember 28, 2007

Þá er komið að tónleikunum sem ég hef beðið svo lengi eftir. Við æfðum Náttsöngvana í Kristskirkju í kvöld (fimmtudag). Hljómburðurinn er alveg æðislegur fyrir þetta verk. Það er virkilega hægt að leyfa sér að syngja veikt. Það má sjá smá bút í lok tíu frétta í kvöld.
Ég er viss um að þetta eigi eftir að verða æðislegt þegar allir eru á tánum á tónleikunum. Ég held að það sé að verða uppselt. Það verður svo æðislegt að taka verkið aftur í Skálholti í júlí næstkomandi. Hlakka þegar til!
miðvikudagur, desember 19, 2007
Þar með hefst alþjóðlegi ferillinn manns.
Það vantar reyndar nöfn einsöngvaranna en það verða Hulda Björk og Ágúst Ólafsson
Sala Filharmonii
Chór Filharmonii Islandzkiej
Magnus Ragnarsson – dyrektor artystyczny
Orkiestra Filharmonii im. W. Lutoslawskiego
J. Brahms - Ein Deutsches Requiem
Data: 2008-04-20
Godzina rozpoczęcia: 18:00
þriðjudagur, desember 18, 2007

Annars hefur verið ansi mikið um að vera á aðventunni. Ég fór austur til Kára til að spila á aðventutónleikum ásamt Jóhanni Friðgeiri. Ég spilaði að miklu leyti á hörpu! Tónleikarnir voru kl. 16 á Eskifirði á sunnudeginum og við ætluðum að ná flugvélinni frá Egilsstöðum kl. 18. Við hlupum út strax eftir lokatóninn, ég, Jói og tvær stelpur úr hljómsveitinni. Svo var svo svakaleg blindhríð að við þurftum að keyra á 20 km hraða og mættum á flugvöllinn tíu mín. eftir að vélin fór. Ég missti af Hljómeykisæfingu, Jói átti að syngja á aðventukvöldi í Bústaðarkirkju og fiðluleikarinn varð að hafna einu giggi. Svona erum við gráðug þetta tónlistarfólk.
Ég spilaði svo líka á tónleikum hjá Steina í Neskirkju þar sem flutt var tveggja tíma verk eftir Handel fyrir kór, einsöngvara og barokksveit. Ég spilaði á orgel úr Seltjarnarneskirkju og þurfti að plokka hverja einustu nótu út og færa hana niður um eitt sæti. Það gekk alveg nema fyrir neðstu áttundina og gat ég því ekkert notað hana sem var dálítið ruglandi. Svo var orgelið ekki beint hreint í þessari stillingu og ég þurfti að vera mjög vakandi yfir hvaða hljóma ég spilaði, eða öllu heldur hvernig ég spilaði þá. En tónleikarnir heppnuðust vel og vöktu mikla hrifningu.
Fílharmónían söng 8 des í dagskrá í Hallgrímskirkju í forföllum fyrir annan kór og hélt svo sína aðventutónleika 9 og 12 des í Langholtskirkju. Það var alveg þrusustemmning og margir alveg yfir sig hrifnir, sérstaklega af lagavalinu enda gekk ég nokkurn veginn frá því í ágúst. Stykkið mitt frá í fyrra vakti mikla hrifningu, bæði meðal kórfélaga og áhorfenda sem og útsetning Trond Kvernos á Heims um ból.
Á sunnudaginn var svo aðventukvöld í Áskirkju þar sem m.a. var flutt Maríumúsík eftir Anders Öhrwall fyrir kór, upplestur og fimm manna hljómsveit. Það svínvirkaði sem betur fer enda mjög grípandi stykki sem hentar vel fyrir svona guðsþjónustur. Ég reikna með því að flytja það aftur að ári enda var formaður sóknarnefndar mjög ánægður með það og vonandi verður ekki vandamál að fá fjármagn
Annars er það af fjölskyldunni að frétta að Ísak er örugglega kominn á "The terrible two" aldurinn. Hann er búinn að öskra og væla í allan dag og gera foreldra sína brjálaða. Dagmamman hans hættir núna á fimmtudaginn en hann kemst nokkuð örugglega inn á Leikskóla Kfum og k í janúar og við erum alveg hæstánægð með það.
þriðjudagur, desember 11, 2007
Það er strax komin umfjöllun frá Silju Aðalsteins um tónleikana. Virgo gloriosa |
Aðventutónleikar hafa yfir sér sérstakan blæ hátíðleika og tilhlökkunar. Annað árið í röð sótti ég í gærkvöldi aðventutónleika Söngsveitarinnar Fílharmoníu í Langholtskirkju og naut þeirra ekki síður en í fyrra. Að vísu var meiri hluti efnisskrárinnar sá sami og eðlilega verður maður ekki eins hissa í annað sinn og maður var í fyrsta sinn, en í stað undrunar kom meiri nautn og þessi einstaki sæluhrollur sem grípur mann þegar maður þekkir það sem kemur og man. Fyrsta gæsahúðin fór um kroppinn undir "Ég vil lofa eina þá," yndislegu lagi Báru Grímsdóttur við gamla helgikvæðið um Maríu, hina dýrlegu mey. Svo heyrði ég í annað sinn verkið "Spádóm Jesaja" eftir stjórnanda kórsins, Magnús Ragnarsson. Það var alveg eins leikrænt, fjölbreytt og skemmtilegt og mig minnti. Annar einsöngvari kvöldsins, Nanna María Cortes, spreytti sig síðan á Ave Maríu Kaldalóns sem varð henni svolítið erfið. Mun betur tókst henni upp í einsöngnum í norska tónverkinu "Toner julenatt", þar sungu systkinin Nanna María og Aron Axel Cortes Heims um ból hluta verksins en kórinn óf hljómavef í kringum þau. Það var afar fagurt og sérkennilegt. Eftir hlé var byrjað á "Hátíð ríkir höllum í", eftir Svanfeldt við íslenskan texta Gunnlaugs V. Snævars. Þar klýfur Magnús kórinn, hefur hluta innst við altarið en annan hluta baka til í kirkjunni. Rosalega fallegt og áhrifamikið verk. Þar næst var komið að fyrsta "nýja" verkinu um kvöldið, franska laginu "Ding dong!" sem er sungið á ensku, kraftmikið og fjörugt. Aron Axel söng með í næsta lagi sem líka var nýtt, "Il est né" - Hann er fæddur - óvenjulegu og líflegu lagi. Næsta nýja lag var "The twelve days of Christmas", heillandi lag við þjóðvísuna makalausu þar sem stúlkan telur upp allt það sem unnustinn gefur henni (eða pilturinn telur upp allt það sem unnustan gefur honum, ég held að þetta sé ekki hægt að kyngreina) jóladagana tólf, allt frá fasananum í perutrénu að trommuleikurunum tólf. Kórinn söng þetta verk af miklum krafti, raddsetningin var óvænt og skemmtileg. Sérstaklega gaman var þegar allur kórinn beljaði tölurnar en sópraninn einn taldi upp gjafirnar. Æðislegt! Ennþá fegurra var næsta nýja lag, Ave Maria eftir sextándu aldar tónskáldið Giulio Caccini sem Nanna söng með kórnum. Þvílíkur unaður. Og bjó fulla kirkjuna undir lokaatriðið, "Magnificat" eftir kórstjórann sem frumflutt var á tónleikunum. Textinn er tekinn úr Lúkasarguðspjalli og er lofsöngur Maríu meyjar til guðs: "Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja." Þetta er aðlaðandi verk, ekki eins leikrænt og "Spádómur Jesaja" en með glæsilegu einsöngshlutverki sem Nanna skilaði með bravúr. Hún var þá orðin verulega heit og tók "Ó helga nótt" sem uppklappslag eins og ekkert væri. Tónleikagestir héldu út í nóttina með fallega rödd hennar hljómandi í huga sér - og allt í einu var sjálfsagt að hlakka til jólanna. |
fimmtudagur, nóvember 22, 2007

Ég verð eiginlega að biðjast afsökunar á þessu bloggi. Þetta er eiginlega ekki orðið neitt nema plögg fyrir eigin tónleika. Þessi vetur er nebblega ansi hektískur. Ég er endalaust að reyna hreinsa upp hin og þessi verkefni og er alveg sífellt að. Þetta er barasta of mikið ef maður ætlar að reyna að verja tíma með fjölskyldunni líka. Ég hef reyndar verið með Ísak á morgnana og fer oft ekki með hann til dagmömmunar fyrr en um tíuleytið... eða jafnvel seinna. Við erum soddan svefnburkur.
Anyhow, hér kemur enn eitt plöggið.
Aðventutónleikar Fílharmóníunnar verða 9. og 12 des í Langholtskirkju. Þeir verða með svipuðu sniði og í fyrra enda heppnuðust þeir tónleikar alveg einstaklega vel og það myndaðist alveg frábær stemmning. Ég er enn að hitta fólk sem talar um þessa tónleika og ætlar pottþétt að mæta núna í ár. Miðar fást t.a.m. hjá mér eða Hrafnhildi með 20% afslætti!
Ég er að semja annað stykki sem ég klára vonandi fyrir næstu æfingu. Ég valdi nú ekki auðveldasta textann til að semja við, nefnilega Lofsöng Maríu sem er svo óreglulegur, alveg eins og Spádómur Jesaja sem ég samdi við í fyrra. En það er ansi gaman að taka það aftur og meta það með smá fjarlægð.
Þann 16. des verður svo aðventukvöld í Áskirkju þar sem Kór kirkjunnar flytur Maríumúsík eftir Anders Örwahll í "fyrsta skipti á Íslandi". Þetta er mjög skemmtilegt og grípandi verk og við erum þegar búin að ákveða að flytja það aftur á næsta ári og þá í "fyrsta skipti á Íslandi" með upprunalegum hljóðfærum, þ.e. sænskum flautum, sellói, kontrabassa og slagverki frá 1974. Og svo árið eftir ætlum við að flytja það "í fyrsta skipti á Íslandi" með upprunalegum hljóðfæraleikurum. Geri aðrir betur!
Svo er nottlega aðalmenningarviðburður ársins þegar Hljómeyki flytur "Vesper" eftir Rachmaninoff í Kristkirkju föstudaginn 28. des kl. 20.00. EKKI MISSA AF ÞVÍ! Alveg frábært verk og flutningurinn verður ekki amalegur!
mánudagur, október 08, 2007
Þessir klezmertónleikar heppnuðust alveg ótrúlega vel. Það var alveg fullt húsí dag og ansi vel mætt í gær. Þeir sem mættu í gær urðu svo hrifnir því þetta kom svo skemmtilega á óvart. Í dag fann maður að margir höfðu komið af afspurn og vissu því við hverju var að búast en stemmningin var engu að síður góð.
Þetta small allt saman á tónleikunum. Kórinn var alveg í hörkustuði og hljómsveitin fann sig endanlega í gær, enda ekki allir vanir að spila svona tónlist. Svo voru nokkrir gyðingar sem voru svo þakklátir að menning þeirra skyldi vera haldið á lofti. Það voru nokkrir kórfélagar sem töluðu um ýmsa áheyrendur sem hreyfðu varirnar með í flestum lögum. Nú tekur við aðventuprógrammið og Brahms. Það verður nú ekki leiðinlegt!
föstudagur, október 05, 2007
Mágur minn með sýningu
þriðjudagur, október 02, 2007
